Karfa

Hulda og Tyrfingur eru stoltir eigendur Uppspuna

Eigendur Uppspuna eru Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson.

Hulda er búfræðingur og kennari, alin upp í sveit við almenn sveitastörf og vann við tamningar á ýmsum stöðum í 15 ár en færði sig síðan yfir í grunnskólakennslu í önnur 15 ár.
 

Tyrfingur er vélvirki með meistararéttindi, alinn upp í sveit við hefðbundin sveitastörf en einnig almennar vélaviðgerðir.

Árið 2011 tóku þau við búskapnum í Lækjartúni af foreldrum Tyrfings, og reka nú blandað bú, þar sem sauðfé og nautgripir leika lykilhlutverk.
 
Mikill áhugi á hvers konar handverki og að nýta það sem til fellur á búinu leiddi þau að stofnun Uppspuna sem er lítil verksmiðja sem vinnur garn úr ull. Vinnslan er mitt á milli þess að vera handverk og vélavinna, en vélarnar eru allar mataðar af starfsfólki sem er með næmt auga fyrir gæðahráefni og grípur inn í ef þess gerist þörf. Vélarnar í Uppspuna eru smíðaðar í Kanada og komu til Íslands 2017. Þær voru gangsettar í fyrsta skipti 1. júlí það ár. Viðtökurnar voru frábærar, við fengum mikla og jákvæða athygli og var vel tekið bæði af prjónurum og ullareigendum, enda eru margir sem eiga kindur og framleiða ull, líka að prjóna. Í upphafi ákváðum við að búa til garn sem samræmdist öðru garni svo hægt væri að styðjast við uppskriftir sem eru til nú þegar. En við erum líka dugleg að prófa eitthvað nýtt. Sumt heppnast vel og fer í framleiðslu og sölu, en annað er ekki eins vel heppnað og er sett ofan í skúffu. En það er gaman að prófa eitthvað nýtt og víkka bæði sjóndeildarhringinn og reynsluheiminn. Uppspuni er staðsettur skammt frá þjóðvegi 1, rétt austan við Þjórsárbrú í Rangárvallasýslu, umkringdur helstu drottningum fjallanna, með Heklu, Eyjafjallajökul, Tindfjöll og Vestmannaeyjar öll í sömu sjónlínu.

 

Framleiðslan

Hráullin

Vörurnar okkar eru unnar úr hráull af okkar eigin búfénaði.

Fyrsti þráðurinn

Eftir að ullin hefur verið hreinsuð og undirbúin er hún spunnin í fínan þráð.

Lokaafurðin

Tveir eða þrír þræðir eru svo tvinnaðir eða þrinnaðir saman í yndislega, mjúka og hlýja ullargarnið okkar.

Staðsetning

Uppspuni er í Lækjartúni í Ásahreppi. Rétt austan við Þjórsárbrú við veg 288. Einungis 20 mínútna akstur frá Selfossi og klukkustund úr Reykjavík. Við erum umvafin íslenskri náttúru og fjallahringurinn býður upp á magnaða ásýnd í góðu veðri.