Karfa
Geitakjóllinn

Þegar við byrjuðum með Uppspuna, ákváðum við strax að spinna geitafiðu fyrir þá geitabændur sem vildu selja sitt eigið garn. Eða koma með til mín og selja mér fiðuna svo ég gæti selt garnið í búðinni hjá mér.

Þetta var strax vel nýtt og margir geitabændur komu með fiðu til mín til að láta spinna eða til að selja mér og ég tók við öllu sem að mér var rétt og reyndi að spinna það. Sumt var mjög gott hráefni og spannst alveg frábærlega, annað ekki alveg eins vel og sumt var bara ekki nógu gott, fór allt í þykkildi og slitnaði stöðugt. Það getur verið heilmikil áskorun að spinna geitafiðu. En útkoman var alveg frábær. Svo fallegt og alveg óhemju mjúkt. Ég man að ég sagði við manninn minn þegar fyrsta lotan kom í gegnum hárskiljuna; "Vá. Við þurfum að fá okkur geit!"

Mjög fljótlega áttaði ég mig á því að ég vissi ekki nóg um geitur og af hverju fiðan var svona misjöfn frá ólíkum bæjum. Mig langaði að vita hvað bændur gætu gert til að bæta gæðin hjá sér og jafnvel ná úrvals hráefni á hverju ári. Svo eftir að hafa hugsað málið aðeins og rætt við fjölskylduna, ákváðum við (ég) að fá okkur geitur. - eins og maður gerir til að læra.

Ég fékk nokkrar yndislegar huðnur og einn hafur til að fá kiðlinga sumarið eftir og átti þær í fjögur ár. Og ég lærði sko heldur betur á þessum fjórum árum allt mögulegt um þessi yndislegu dýr. Þær hafa sinn eigin karakter, fara (næstum því) allt sem þeim dettur í hug og eru mjög sakleysislegar á svipinn þegar komið er að þeim þar sem þær eiga ekki að vera, þær hafa gott minni, framleiða frábæra mjölk og osta þegar þeir eru gerðir úr mjólkinni, kjötið er líka gott, þegar ég hafði lært að elda það, og garnið!!!! Vá!!
Já, ég kunni vel við að vera geitabóndi.

En stundum breytast bara áætlanir og þó ég hafi haft virkilega gaman af geitunum og þótt mjög vænt um geiturnar mínar, þá þurfti ég af ýmsum ástæðum og með sorg í hjarta að selja þær frá mér haustið 2024.

En öll árin sem ég átti þær, safnaði ég af þeim fiðunni og spann í garn. Seldi eitthvað af því, en geymdi líka eitthvað til að gera eitthvað fyrir sjálfa mig, án þess að vera með verkefni í huga.

Þegar ég hafði ákveðið að selja þær, safnaði ég fiðu af þeim sem ég átti og spann það alltsaman í garn handa mér sjálfri. Mig langaði að búa til eitthvað einstakt handa sjálfri mér. Eitthvað til að nota við sérstök tilefni, sem ég myndi leggja vinnu í og heiðra þannig tilveru geitanna minna. Til að muna þau skemmtilegu augnablik sem við áttum saman og hversu áhugaverðir einstaklingar þær voru allar saman. Muna þegar ég var að fóðra þær, kemba þeim, kenna þeim að teymast, girða fyrir þær, mjólka þær, knúsa kiðin, klappa þeim eldri og spjalla við þær mörgum stundum.

Svo fór ég í það að prjóna mér kjól.

Engin hönnun.

Engin uppskrift.

Spila bara eftir eyranu.

Vera sjálfstæð eins og geiturnar.

Sjá hvað yrði til við verkið.

Ég leitaði að hugmyndum og svo náði ég mér í prjóna og garn og byrjaði.

Ég byrjaði neðst á pilsinu og notaði prjóna nr 3 (mm), var með eitthvað um 450 lykkjur til að byrja með (ef ég man rétt,- allavega alveg fullt af lykkjum) Ég gerði ekki stroff, heldur hafði jafnmargar lykkjur sléttar og brugðnar, án þess þó að efnið rúllaði upp. Ég hafi tvo liti að vinna með, hvítt og grábrúnan, en það eru þeir tveir náttúrulegu litir sem hægt er að fá af íslenskum geitum. Mig langaði ekki að lita einhverja skrautlega liti fyrir þetta heldur nota þá liti sem geitin gefur og nota þá báða. Ég hannaði um leið og ég prjónaði. Hugsaði um hvað ætti að koma næst og áttu brugðnu lykkjurnar að vera til að fækka lykkjum og fá þannig bylgjur í pilsið. Af því að ég var með svo margar lykkjur á prjónunum, þá byrjaði ég fljótlega að fækka þeim, - of fljótt sá ég þegar kjóllinn var búinn, en ég ætlaði ekki að rekja hann upp og byrja aftur. Ég gerði nokkrar rendur neðst, en sá fljótlega að ég hefði lítið gaman af að prjóna slétt endalaust með hvítu. Þannig að ég ákvað að gera einhverskonar blóm öðru hvoru. Prjónaði þá tvær saman og sló uppá prjóninn. Ég vildi alls ekki hafa þau of regluleg, því geitur fylgja ekki reglum og kjóllinn átti þá ekki að gera það heldur, svo blómin eru bara hér og þar. Þau áttu líka að einkenna þann einstaka hæfileika geitarinnar að skríða í gegnum nánast ósýnileg göt og komast þangað sem þær langar, ef eitthvað heillar þær hinum megin girðingar til dæmis. Það er sömuleiðis óútreiknanlegt.

Þegar komið var í mittið, breytti ég aftur í grábrúna litinn, bætti við blómum og tók varlega saman. Allt of varlega og ég þurfti að rekja upp og byrja aftur, því þetta varð allt of vítt. Gerði mittið aðeins þrengra og varð sáttari við það þannig. Síðan skipti ég aftur í hvítt og byrjaði á efri partinum sem þarfnaðist umhugsunar og pælinga á hvernig ég ætti að útfæra.

Mig langaði að hafa eitthvert munstur bæði að framan og aftan og þar sem ég er afskaplega heitfeng, þá vildi ég hafa hálsmálið vítt. Mig grunaði að þessi kjóll yrði hlýr og því þurfti að spekúlera hvernig best væri að mæta þessum eiginleika mínum. Þegar komið var upp að höndum fór ég að prjóna fram og til baka, fyrst bakstykkið og hélt áfram með munstur og síðan varð ég að prjóna fram og til baka beggja vegna við hálsmálið, sem ég reyndi að hafa vítt og axlastykkið þröngt, ákveðin í að prjóna litlar ermar í lokin. Á einum tímapunkti þurfti ég að rekja upp bakstykkið af því það passaði ekki, en í annarri tilraun varð það eins og ég ætlaði að hafa það.

Ermarnar urðu reyndar smá höfuðverkur. Ég ákvað að taka upp lykkjur allan hringinn og prjóna í hring og fækka lykkjum reglulega á neðanverðum ermunum og einnig gera munstur. Prjónaði síðan fram og til baka, stundum með styttum umferðum, stundum allan hringinn. Hugmyndin var að þær kæmu aðeins niður á handlegginn, fyrst var ég að hugsa um einhverskonar blúndu, en hætti við það og vildi hafa þær hefðbundnar. Ég hefði átt að byrja að ofan og taka bara upp nokkrar lykkjur. Prjóna síðan áfram og taka alltaf upp í hvorum enda lykkur og komast þannig niður í handarkrika. En ég veit það bara næst (ef það verður næst). Og þar sem ég gerði það ekki þannig og skrifaði ekkert niður, þá urðu ermarnar náttúrulega ekki alveg fullkomlega eins. Ég þurfti að rekja seinni ermina upp einu sinni og byrja aftur. En svo gekk þetta upp og þær urðu nógu mikið eins. Ég meina, það er bara ég sem veit hvor ermin er ekki eins og hin.

Ég prjónaði og prjónaði og rakti upp og prjónaði meira. Hrúgan í fanginu á mér varð stærri og stærri, ég er jú frekar stór, nota yfirleitt L eða XL og eftir því sem ég var með meira af kjól í fanginu fór ég að hugsa um að þetta væri nú að vera dáldið dýr kjóll! "Ég enda í kílói af garni í þennan kjól" hugsaði ég, en geitagarn er dýrt garn og algjörlega þess virði. En hvað haldið þið? Kjóllinn er 302 grömm. Þegar ég fer í hann er eins og ég sé ekki í neinu. Hann er svo léttur og lipur. Töfrarnir við kasmír er nefnilega að það verður heilmikið úr því en vigtar afskaplega lítið.
Og það er svooooo mjúkt. Ég held ég hafi aldrei átt neitt eins einstakt og svakalega fallegt.

Ég hef fengið tækifæri til að nota kjólinn þó nokkrum sinnum nú þegar og alltaf vekur hann athygli. Margir sem þekkja mig og koma til mín til að heilsa mér, leggja hönd á öxlina, staldra við og segja; "Vá! Þetta er mjúkt. Hvað er þetta?" og þegar ég segi þeim að þetta sé geit, stækka augun og þau hvísla: "Er þetta GEIT!!!" og svo strjúka þau mér aðeins meira.

Á meðan ég prjónaði kjólinn og velti fyrir mér hvernig hann myndi líta út, rekjandi upp og hannandi í huganum hvað ég ætti að gera næst, komst ég ekki hjá því að hugsa stöðugt um yndislegu geiturnar mínar. Ég sá þær fyrir mér þegar ég var að kemba þessa dásamlegu, viðkvæmu fiðu af þeim til að vinna með.
Hvernig Hneta sneri stundum höfðinu að mér og þefaði af mér eins og hún vildi segja: "Þú mátt taka þetta, það kemur meira seinna." og svo gaf hún mér lítinn koss með nefinu.
Hvernig Heiða stóð fyrir aftan eins og hún væri að bíða eftir að röðin kæmi að henni.
Og Mandla var alltaf aðeins lengra frá hinum. Sá fyrir sér að hún gæti mögulega komist upp með að fá smá góðgæti og fara svo bara aftur að bíta gras í smá stund. Koma svo aftur og biðja um meira af því að hún var viss um að ég væri búin að gleyma að hún væri búin að fá í fyrra skiptið. Hvernig hún setti höfuðið niður þegar ég greip í hálsólina hennar og batt hana við vegg og byrjaði að kemba henni. Hún virtist ekki vilja þetta fyrst, en síðan slakaði hún á og naut augnabliksins, því þetta var gæðastund fyrir okkur báðar.
Ég minntist þess líka þegar tengdamamma sagði mér að þær hefðu komið í heimsókn í garðinn hjá henni einn daginn og síðan farið aftur þegar kominn var tími til að ég hleypti þeim inn. Og ég var frekar hissa, því þegar ég hleypti þeim inn, þá biðu þær við dyrnar og voru mjög sakleysislegar eins og þær hefðu aldrei farið neitt sem ekki var ætlast til að þær færu.

Ég sakna þeirra oft.
En kjóllinn mun ávallt minna mig á þær.

Share on facebook
Share on twitter
Share on email