Karfa
Það sem er alvöru

Veltir þú stundum fyrir þér, hvað er ekta og hvað er gervi þegar þú hugsar um fatnað?

Mér finnst þetta atriði mjög mikilvægt.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að hafa í huga hvaða afleiðingar gerðir okkar og atferli hefur.

Ég held að hver einasta manneskja vilji að jörðin sé heilbrigð og komist vel áfram til næstu kynslóða. Þannig að maðurinn, dýrin og jurtir geti haldið áfram að lifa á jörðinni, heilbrigð og hraust.

Mér finnst mikilvægt að hugsa um hvað við borðum, hverju við klæðumst og hvað við notum í okkar daglega lífi. Í þessum pósti langar mig að tala um fatnað.

Textíliðnaður er talinn vera mest mengandi iðnaður heims og svo mörg kemísk efni eru notuð við framleiðslu á textíl og fatnaði. Sérstaklega við framleiðslu á gerviefnum, en minna við framleiðslu úr náttúrulegum efnum. Gerviefni og gervifatnaður er eitthvað sem við ættum því að forðast að nota. Það er í rauninni alveg ótrúlegt hvað við notum mikið af plasti í fatnað og mjög margir vita ekki einu sinni að það er plast. Svo mér datt í hug að segja nokkur orð um þetta.

Polyester, Nylon, Polythene, Elastic, Acrylic, Polypropylene, Spandex, Rayon (Viscose) og þetta er ekki allur listinn.

Þetta eru allt efni sem eru búin til úr eða með plasti að hluta eða eingöngu. Mjúkt og hægt að setja í þvottavél án þess að það þæfist eða krumpist, svo það er vinsælt í notkun og selst vel. Superwashed ull er eitt dæmið um plast. Þá er búið að húða ullina með plasti. Þess vegna er hægt að þvo þetta á háum hita án þess að það þæfist. Superwashed ull er ull, en búið að meðhöndla hana mjög mikið.

Vissir þú að í hvert einasta skipti sem þú klæðist eða þværð föt sem eru úr þessum efnum, losna míkróagnir af plasti úr flíkinni og fara út í andrúmsloftið. Það blandast við vatnið og fer út í hafið, í dýrin, í drykkjarvatnið og í okkur. Í hvert einasta skipti sem flíkur úr gerviefnum eru þvegnar eða notaðar. - Þá gerist þetta.

Hvað getum við gert?

Ég tel það algjörlega nauðsynlegt að forðast að nota föt sem eru unnin úr þessum efnum. Og við höfum aðra möguleika sem eru betri fyrir náttúruna. Þau eru náttúruleg, lífræn, sjálfbær og endurvinnanleg. Þau brotna niður á eðlilegan lífrænan hátt í náttúrunni.

Eitt af þessum efnum er ULL. Þegar hún er 100% ull og ekki búið að vinna hana í drasl eða meðhöndla með einhverjum efnum.

BÓMULL - helst lífrænt ræktuð

SILKI

Þetta eru allt efni sem við notum lika í föt og við ættum að horfa eftir. En ég ætla samt að ræða ullina eingöngu hér.

Hafa verður í huga að ég er sauðfjárbóndi sem spinn garn úr ullinni af mínum eigin kindum og nota í mín föt. Þannig að málið er mér mikilvægt af hagkvæmum sjónarmiðum. En það þýðir ekki að ég viti ekki hvað ég er að tala um. Heldur einmitt ástæðan fyrir því að ég veit akkúrat hvað ullin er frábært og magnað hraéfni.

Ullin hefur þann magnaða náttúrulega hæfileika að halda þér heitum í kulda og kæla þig í hita. Hún dregur í sig vatn upp að ákveðnu marki og síðan byrjar vatnið að renna af henni, þannig að þú ert líka þurr þótt það rigni. Hvert einasta ullarhár hefur litla ósýnilega króka (sjást í smásjá) sem gerir það að verkum að hún þæfist auðveldlega. En þeir gera það líka að verkum að ullin heldur sér vel saman og þéttist við notkun, þannig að hún verður nánast vindheld (fer samt að sjálfsögðu eftir því hvernig úr henni var prjónað). Ullin hefur líka þann náttúrulega hæfileika að hreinsa sig sjálf svo það þarf ekki að þvo ullarflíkur eins oft og aðrar flíkur. Stundum er nóg að hengja hana út í vind eða leggja hana í snjóinn, hrista hana svo og þá er hún tilbúin til notkunar að nýju.  

Sauðkindin hefur fylgt manninum um aldir og ullin vex á henni á hverju ári. Það þarf að rýja (klippa) ullina af kindunum árlega - stundum tvisvar á ári, því þær fara ekki sjálfkrafa úr ullinni. Örfáar gera það reyndar, en það er svo sjaldgæft að það er betra fyrir kindina að fá sína árlegu hársnyrtingu, - bara eins og við. Það lætur kindinni líða betur og við fáum ullina - þetta magnaða hráefni til að gera fatnað, teppi, mottur, skreytingar eða hvaðeina sem okkur dettur í hug að nýta ullina til.

Og svo, þegar flíkin er fullnýtt eða er komin með göt sem er ómögulegt að laga, þá má bara setja hana í moltuhauginn og skila henni aftur til náttúrunnar þar sem hún brotnar niður á náttúrulegan hátt.

Þess vegna er ull sjálfbær auðlind.
Mér finnst ákaflega mikilvægt að tala um þetta. Það er mikilvægt fyrir kindina, það er mikilvægt fyrir mannkynið og það er mikilvægt fyrir jörðina.

Þannig að, Gott fólk. NOTUM ULL.

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on email