Karfa
Íslenska ullin - FLEKKÓTT
Flekkótt lamb með hvítri móður.

Flekkótt er yfirheiti á mislitu fé í íslenskri sauðfjárrækt, en það segir ekki allt. Hver einasti litur hefur ákveðið útlit og allir hafa þeir mismunandi heiti á íslensku. Enda er sauðkindin samofin íslensku samfélagi og því eðlilegt að allir litir hafi nafn. Þannig ræður svarti flekkurinn (eða mórauði) heiti litarins. Sem mætti kannski frekar kalla munstur því þeir sem heita sama nafni hafa svipaða dreifingu yfir kindina. Svona til að nefna nokkur nöfn á mislitu fé; flekkótt, hölsótt, kápótt, sokkótt, arnhöfðótt, bíldótt, baugótt, krúnótt, botnótt, hálsótt, höttótt, leggjótt og þetta eru bara nokkur af þeim sem koma upp í hugann. Nú og svo til að auka enn frekar á fjölbreytileikann, þá eru sumir litirnir nefndir ólíkum nöfnum eftir landshlutum. Þannig er liturinn sem flestir kalla golsótt, kallaður goltótt sumsstaðar fyrir vestan og mögótt í Skaftafellssýslum. - Það skapar alveg fjörugar umræður stundum.

Nýrúin lömb; eitt þeirra baugótt, kjömmótt.

Ull á kindum með fleiri en einn lit er yfirleitt mýkri en gengur og gerist með einlita ull. Ekki alltaf, en svo oft að það má segja yfirleitt mýkri. Þegar flekkótt reyfi er líka með hreinhvítan lit (ekki doppótt) þá er hvíti liturinn svakalega hvítur og mjög mjúkur og svarti liturinn er yfirleitt hreinsvartur og líka feiknalega mjúkur. Þetta finnst mér svo áhugavert, því í fjöldamörg ár hafa íslenskir sauðfjárbændur fengið minna greitt fyrir mislita ull en einlita. Stundum jafnvel ekki neina greiðslu, - hún var verðlaus. Það er svo lítið fyrir mislita ull að hafa að sumir bændur sjá ekki ástæðu til að rækta mislitt fé og sumir sem eiga mislitt rýja þær bara einu sinni á ári til að spara rúninginn á þeim. Yfirleitt er fé á Íslandi rúið tvisvar; á haustin og svo á vorin, en haustullin er sú ull sem best er að vinna með í garn. Vorrúningurinn er svo til að hreinsa af kindunum svo þeim líði betur og til þess að ullin næsta haust verði í lagi. Þetta er ekki alltaf gert við mislitt fé og ullin af þeim sett í annan eða þriðja flokk og mikið af henni notað í gólfteppaiðnað.

Golsótt, botnótt og flekkótt lömb.

En mislita ullin er svo mjúk og hún getur gefið fjölbreytileika í litum garns sem maður gæti annars bara látið sig dreyma um. Og af því að munstrin eru svo breytileg, þá verður garnið líka einstakt. Enginn mun mæta þér í nákvæmlega eins litri peysu sem prjónuð er af mislitum kindum. Ég veit ég er alltaf að segja að þessi og hinn liturinn sé einn af uppáhalds ullinni að vinna með. Sko. Það er alveg satt, því ég elska ull. En mislit ull! Það er bara sönn ánægja. Þegar ég fæ fallegt reyfi sem er hreint og með fjölbreytni í litum, þá er bara óskaplega gaman hjá mér. - Og ekkert meira um það að segja.  

Vafalaust eru margir sem hafa heyrt um forystufé, en vissuð þið að þær eru séríslenskar og þessi greind sem finnst í forystufé á sér ekki hliðstæðu erlendis?
Mig langar að segja ykkur hvernig þær urðu til, en það eru tvær ólíkar sögur um það. Önnur er svona:

Ég á ekki forystufé sjálf, en hér er mynd sem ég fann á netinu.

Bóndi nokkur kom að líta eftir fénu sínu og sá þá hrút sem hann hafði aldrei áður séð í fénu. Hann var svartarnhöfðóttur, með löng víð horn, greindarlega augu og fæturnir langir og sterkir. Augun voru vitur og horfðu í augun á bóndanum áður en hann hvarf jafn snögglega og hann hafði birst. Um vorið fóru ærnar að bera. Sumar eignuðust hvít lömb sem voru greinilega undan hrútnum sem bóndinn hafði sjálfur notað, en sum voru með langa leggi, greindarleg augu og með tvo liti á ullinni. Langt frá því að líkjast hrútnum sem hann hafði sjálfur notað. Sagan segir að huldufólkið sem bjó í nágrenni við hann hafi lánað honum hrút til að þakka fyrir greiða sem hann hafði gert þeim. Bóndinn lét nokkur lömb lifa, komst að því hversu greindar skepnur þetta voru og hélt áfram að rækta féð sem fékk nafnið forystufé. 

Hin sagan er svona:

Áður fyrr var heyskapur erfiðari og oft minna til af heyjum til vetrarins og bændur beittu kindum sínum út á veturna til að spara heyin. Þá voru þær bara hýstar á nóttunni en reknar til beitar á daginn. Þannig að það var miklu meira unnið með fénu þá en gert er í dag og bændur oftar að fara með féð úr og í hagana. Þeir kynntust því skepnunum mjög náið og áttuðu sig á hegðun þeirra. Þa sáu þeir kindur sem voru vitrari en hinar, leiddu hópinn í haga og heim aftur og þorðu að taka áhættu. Bændur áttuðu sig á að það var heilmikil aðstoð í svona kindum og fóru að rækta fram þessa eiginleika hafandi eina eða fleiri í hjörðum sínum sér til aðstoðar. Kannski eru báðar sögurnar tilbúningur, en forystukindur hafa verið með íslenskum sauðfjárbændum svo lengi sem elstu menn muna og muna þeir margt.

Litríkur hópur á Degi Sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu.

Forystufé, eins og nafnið bendir til, fer oft fyrir fénu. Kindur hafa mikið hjarðeðli, þannig að ef ein hreyfir sig, þá hlaupa allar hinar á eftir. En forystukindin er greind og hjálpar við að leiða hópinn ef hún veit hvert hún á að fara. Forystufé getur spáð til um veður og ef forystukind birtist allt í einu heima við hús, þá er eins gott að fara að leita að hinum kindunum og koma þeim í skjól.

Ef forystufé er ekki þjálfað getur það verið til mikilla vandræða. Þær eru leggjalangar og geta hlaupð hraðar en bóndinn, þannig að ef það sér að það á að fara heim og þær ætla sér það ekki... - Já, þá er eins gott að vera á góðum hesti. Mögulega eru báðar þessar sögur tilbúningur, en forystufé hefur hjálpað íslenskum sauðfjárbændum svo lengi sem elstu menn muna... og þeir muna nú ýmislegt.

Forystufé er alltaf mislitt. Ullin er mýkri en af öðru fé og sagt er að ef þú klæðist flík af forystufé, þá ratir þú alltaf heim.

Á norðurlandi er safn tileinkað forystufénu. Fræðastur um forystufé. Daníel Hansen rekur það og hefur safnað þangað ýmsum munum og fróðleik um forystufé ásamt vörum sem unnar eru af afurðum þeirra. Það er vel þess virði að kíkja þar við.

Ég á ekki margar flekkóttar kindur, en stefni á að bæta úr því. En ég á nokkrar botnóttar og golsóttar. Myndin sem er við innganginn á þessari frétt er af golsóttri kind sem við eigum og er mikill vinur minn. Hún heitir Þjóðhildur. Þarna er hún að spjalla við Dimmu og þið sjáið hversu mikið hún treystir okkur, því fóturinn á mér er þarna líka. Þessi kind er fádæma gáfuð og hefur forystueðli. En hún er ekki skráð sem forystukind og hefur ekki þá erfðabreytu sem forystufé hefur. Stundum þegar við vinnum náið með dýrum, þá fer maður að velta fyrir sér hvort það viti ekki meira en maður sjálfur. Þjóðhildur er ein af þeim. 

Share on facebook
Share on twitter
Share on email