Karfa
Sauðburður

Síðustu vikurnar hafa sannarlega verið hápunktur hvers sauðfjárbónda. Hér hefur sauðburður staðið yfir og hafa kindurnar okkar samtals komið um það bil 300 lömbum í heiminn. Eins og gefur að skilja fer mikil orka og vinna í þetta ferli, við vöktum kindurnar 24 klukkutíma á sólarhring á meðan sauðburður varir og gætum þess að lömb og kindur hafi það sem best og að allt gangi smurt fyrir sig. Nú hafa flestar ærnar borið og við fáum að njóta þess að fylgjast með litlu lömbunum vaxa og dafna og leika sér í loftköstum á meðan svifaseinar mæður þeirra éta heyið eða liggja og jórtra. Við erum farin að hleypa þeim út í vorið. Það hefur verið býsna kalt, en nú er farið að hlýna og sólin vermir. Með vætu mun síðan allt fara að grænka og þá líður sauðfénu vel. - Það er yndisleg tilfinning hjá sérhverjum bónda að vita að dýrunum þeirra líður vel og að þau hafi allt sem þau þurfa; vatn, fóður og skjól. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum erum við með litrík og flott lömb. Þau munu gefa af sér fallega og mjúka ull næsta haust sem verður smám saman að Uppspunagarni. Það er ekki laust við að lömbin séu svolítið forvitin yfir þessari spunnu ull sem sett var fyrir þau til að taka myndir- hvað er þetta eiginlega?

Share on facebook
Share on twitter
Share on email