Karfa
Réttir

Kindurnar okkar fara til fjalla í júlí og eru þar á 2.280 ferkílómetra svæði yfir sumarið. Við förum með þær á traktorum og vögnum í byrjun júlí og sækjum þær svo í september.

Margir hafa spurt mig hvernig við náum þeim öllum heim, svo mér datt í hug að lýsa eins og einni fjallferð fyrir ykkur. 
Svæðið til fjalla er risastórt og það er líka langt í burtu. Tveir fjallaskálar eru á afréttinum, staðsettir í sitt hvorum enda hans. Annar við Hald (næst byggð) og hinn við Versali sem er svo til á miðjum Sprengisandi. Það er nærri því þriggja tíma akstur til þess sem er lengra í burtu, svo við keyrum hestum, fjórhjólum og kerrum þangað og leitum síðan að kindum á þeim fararskjótum. Finnist kindur svona norðarlega, eru þær gripnar og settar í kerrur og keyrðar heim í hús. Mikil áhersla er lögð á að finna hverja einustu kind sem þarna er að finna. Þetta er gert í þrjá daga og allt svæðið inn að Nýjadal fínkembt.

Það er nánast ómögulegt fyrir kind að lifa veturinn af þarna og því verðum við að finna þær allar.

Fjórða og síðasta daginn fjölgar smölunum um helming. Lína er mynduð frá austasta parti afréttarins til þess vestasta og menn á hestum, hjólum og gangandi fylgjast að með sýnilegri fjarlægð sín á milli. Þannig þokast þeir fram afréttinn og hóa öllu fé sem finnst á undan sér til réttar. Safnið stækkar og stækkar og allar sækja þær í áttina heim, fylgt eftir af smölunum sem hafa það eina markmið að KOMA ÖLLUM KINDUM TIL BYGGÐA.

Við byrjum snemma alla daga og nýtum vel dagsbirtuna sem styttist nú með hverjum degi haustsins. Allir eru komnir af stað klukkan 7 og byrjað að smala klukkan 9 á morgnana.
 Síðasta daginn, sem er laugardagur, lýkur smölun venjulega milli 5 og 6. Kindur, fólk og hestar er lúið eftir langan dag og hvíldinni fegin en einnig ánægð með gott dagsverk. Allir fá nú að slaka á og nærast. Kindurnar fara í næturhólfið sem er grösugt og með rennandi fersku vatni. Hestarnir fá hey eða gras að bíta og fólkið fer inn í húsið við Hald og borðar góðan kvöldmat. Að honum loknum eru hestarnir keyrðir heim, en þeirra vinnu er nú lokið.

Sunnudagurinn hefst með staðgóðum morgunmat. Síðan er athugað hvort réttin sé í lagi og tilbúin fyrir réttardaginn. Klukkan 9 byrja réttirnar.
Hópur fjár er rekinn inn í almenninginn og hver bóndi fer með aðstoðarfólki sínu um hann og dregur sínar kindur í dilk sem tilheyrir hverjum bónda. Allar kindur eru með eyrnamerki með bæjarnúmeri sem segir til um hver eigi hvaða kind. Okkar númer er 45R1 og allt fé með því númeri er dregið í okkar dilk. Þegar dilkurinn er fullur er hann tæmdur á vagn sem er keyrður heim á traktor og fénu sleppt í grösuga haga heima við. Síðan er þetta endurtekið þar til næturhólfið við réttina er tómt, allar kindurnar komnar úr réttinni í dilk og þaðan á vagn og heim í hagana í byggð. 

 

Þetta er menningararfur okkar Íslendinga og tími gleði, uppskeru og endurfunda. Fjölskyldumeðlimir koma saman og gleðjast saman við vinnu í kringum kindur og lömb.

Ég fæ að hitta kindurnar mínar aftur og sjá hvernig þær hafa haft það yfir sumarið. Þessi tími er viðurkenning og umbun fyrir vinnuna sem við höfum lagt í að ala, annast og rækta góða gripi. Við gerum okkar besta til að bjóða öllum okkar dýrum upp á bestu lífsgæðin og reynum að uppfylla allar þeirra þarfir. Það er gaman að fá kindurnar heim og sjá þroska þeirra. - OG... ég fæ yndislega nýja ull að vinna með. :-) 

Share on facebook
Share on twitter
Share on email