Karfa
Íslenska ullin

Á Íslandi er bara eitt sauðfjárkyn; íslenska sauðkindin. Hún tilheyrir Norður Atlantshafs stuttrófu kyninu. Eins og nafnið bendir til, þá er hún með stutta rófu eða dindil, en hún hefur líka tvenns konar hárgerðir, Tog og þel. Togið er langt, gróft og sleipt og er vatnsfráhrindandi. Það er kallað tog af því að það er hægt að toga það úr þelinu, en þelið er nafnið á innri hárunum. Togið hefur oft fallega lokka og glans og það er togið sem við sjáum þegar við horfum á kindur í haga sem líta út eins og loðnir brúskar á beit. Þelið er einangrandi og ofsalega mjúkt og það heldur hita á kindinni og okkur þegar við erum í ullarfötum. Í gamla daga var þelið notað í undirfatnað og togið í segl meðal annars. En annars er hægt að nota íslenska ull í afskaplega ólík verkefni.

Það er alltaf gaman að vinna með ullina í spunaverksmiðjunni, en stundum fæ ég ull í hendurnar sem er algjört listaverk. Þá tími ég varla að vinna hana í garn og laumast til að taka lítinn bút frá, eingöngu til að draga fram öðru hvoru og dást að henni.

Í Uppspuna notum við hárskilju til að taka burt allra grófustu hárin. En við látum hana ekki fjarlægja allt. Við viljum hafa eitthvað af því í garninu til að gefa því styrk. Stundum sleppum við því alveg að nota hárskiljuna og þá búum við til sokkagarn og styrkur þess er í toginu sem er þá ekki hreinsað í burtu. Þannig getum við sleppt því að nota plast (nylon) til að styrkja sokkagarnið. Við notum bara náttúrulega eiginleika ullarinnar og fáum sérstaklega sterkt og hlýtt sokkagarn úr hreinni ull. Bestu sokkar sem ég veit um eru úr þessu garni. Og þegar þeir hafa verið fullnýttir má setja þá í moltuhauginn, því í þeim eru eingöngu náttúruleg niðurbrjótanleg efni og ekkert plast.

Þegar við viljum fá mýkra garn, þá getum við sett ullina oftar en einu sinni í gegnum hárskiljuna og fengið nánast hreint þel til að vinna með. Við erum farin að gera það þegar við búum til "Hjónabandið" okkar en það á í framtíðinni að verða þelbandið okkar. Hvað hæfir betur hjónabandi en mjúkt og hlýtt garn?

Mig langar að fræða ykkur meira um íslenska ull hér í blogginu mínu, þannig að ég ætla að segja frá hverjum lit sérstaklega. Í næstu póstum munu því birtast fróðleiksmolar um ullarlitina okkar og garnið sem má gera úr þeim,- mun væntanlega taka einhverjar vikur.
Við skulum byrja á þeim hvíta.

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on email